Erfðatækni  hefur verið markaðssett sem græn tækni sem muni vernda bæði náttúruna og líffræðilegan fjölbreytileika. Hins vegar eru þau tæki sem erfðatæknin býr yfir hönnuð til að stela  uppskeru náttúrunnar með því að tortíma líffræðilegum fjölbreytileika, auka notkun plöntueiturs  og skordýraeiturs, og valda þannig víðtækri áhættu á óafturkræfri  mengun hins náttúrulega erfðamengis.

Samkvæmt forseta Monsanto , Hendrik Verfaillie, eru allar fjölbreyttar tegundir lífvera sem ekki falla undir einkaleyfi og eru ekki í eigu Monsanto illgresi sem "stelur sólargeislunum." Samt sem áður stela stórfyrirtæki sem nýta sér erfðatækni uppskeru náttúrunnar á fjölbreyttum tegundum, annað hvort með því að eyða líffræðilegum fjölbreytileika af ásetningi eða með því að menga líffræðilega af misgáningi bæði tegundir og vistkerfi. Fyrirtækin stela uppskeru heimsins af hollum og næringarríkum matvælum. Að lokum, stela fyrirtækin þekkingu frá almennum borgurum með því að kæfa óháð og sjálfstæð vísindi og með því að neita neytendum um réttinn til að vita hvað er í fæðu þeirra.

Að fæða heiminn!

  • „Við fæðum heiminn“ er aðalslagorð líftækniiðnaðarins. Í evrópskri fjölmiðlaherferð árið 1998 sem kostaði 1,6 milljónir dollara auglýsti Monsanto á eftirfarandi hátt:
  • „Það að hafa áhyggjur af sveltandi komandi kynslóðum mun ekki skapa fæðu fyrir þær í framtíðinni. Líftækni í matvælaframleiðslu mun hins vegar leysa vandann .
  • Fólksfjöldi jarðar fer hratt vaxandi, og á 10 ára fresti bætist við mannfjöldi sem samsvarar íbúafjölda Kína . Til þess að geta fætt þennan aukalega milljarð manna, er hægt að reyna að stækka umfang ræktaðs lands eða þá að ná fram meiri uppskeru af þeirri ræktun sem þegar er til staðar. Þar sem mannfjöldi jarðar mun tvöfaldast kringum árið 2030, getur þessi mikla þörf fyrir land einungis orðið enn meiri. Jarðvegsrof og útskolun  steinefnaauðlinda mun gera jarðveginn snauðan. Lönd eins og þau sem eru heimkynni regnskóga jarðar munu verða tekin til ræktunar. Notkun áburðar, skordýraeiturs, og plöntueiturs mun aukast um allan heim.
  • Hjá Monsanto, trúum við því að líftækni í matvælaframleiðslu sé jákvætt skref fram á við. Líftækni-frækornin okkar hafa til að bera náttúruleg, jákvæð gen sem hafa verið sett inn í erfðamengi frækornsins  til þess að framleiða, t.d. korntegundir sem hafa viðnám gegn skordýrum eða sjúkdómum.
  • Sú þýðing sem þetta felur í sér fyrir sjálfbæra þróun matvælafram¬leiðslu er gríðarleg: Minni efnanotkun í landbúnaði, sparnaður fágætra auð¬linda. Meiri uppskera. Uppskera sem er ónæm fyrir sjúkdómum. Á meðan við myndum aldrei halda því fram að hafa leyst matvælaskort heimsins á skömmum tíma, felur líftæknin í sér einn möguleika til þess að fæða jörðina á skilvirkari hátt.
  • Að sjálfsögðu, erum við fyrst og fremst fyrirtæki sem er viðskiptalegs eðlis. Við stefnum að því að ná fram hagnaði, og viðurkennum á sama tíma að það eru til önnur sjónarhorn á líftækni heldur en okkar. Hafandi sagt þetta, er rétt að taka fram að 20 opinberar eftirlitsstofnanir um allan heim hafa samþykkt uppskeru sem ræktuð er út frá frækornum okkar sem örugga.“

Hoechst, annað "lífvísindafyrirtæki," að eigin sögn, birti svipaða auglýsingu þann 16. apríl, 1999, í Financial Times, og bað okkur um að "ímynda okkur heim þar sem uppskeran  vex jafn hratt og fólksfjöldinn."

Það er kaldhæðnislegt að Monsanto þénar mest af sínum tekjum með því að selja efnablöndur , sem birtir lygina á bak við fullyrðingar fyrirtækisins um að það sé "lífvísinda" fyrirtæki.  Fyrirtækið reynir að dylja þessa staðreynd með því að lýsa sölu sinni á efnum sem notuð eru í landbúnaði eins og Roundup og tengdum vörum sem um sé að ræða "landbúnaðar" vörur  frekar en efnablöndur Hin „græna“ ímynd um að erfðabreyttar korntegundir séu sjálfbærar er blekking sem er sköpuð af stórfyrirtækjum.

Þessi blekkingarmynd er dregin upp með mismunandi hætti. Í fyrsta lagi, reyna stórfyrirtækin¬ að kynna líftækni sem "upplýsinga" tækni  sem hafi engin efnisleg vistræn áhrif. Eins og stjórnarformaður Monsanto's hefur lýst yfir, "Í grundvallaratriðum, gefur líftæknin  okkur möguleika á því að ná fram sjálfbærri þróun  með því að setja inn upplýsingar í stað efnis." Hvaða leið getur verið auðveldari til að leika guð en að beita þeirri röksemdarfærslu að líftæknin nái fram sjálfbærri þróun með því að "setja inn upplýsingar í stað efnis“? Efnisleg áhrif erfðatækninnar hverfa og um leið, gufar vandamálið um neikvæð áhrif á vistkerfi upp. Hins  vegar er Roundup "efni," en ekki upplýsingar.  Roundup Ready sojabaunir eru efni, Bollgard bómullarplanta  er efni, genin sem notuð eru til að splæsa í efnið eru efni og þetta efni hefur áhrif á vistkerfi .

Í öðru lagi, dreifa stórfyrirtækin þeim villandi upplýsingum að erfðabreyttar korntegundir þurfi minna af efnablöndum. Staðreyndin er sú að rannsóknarniðurstöður sýna að erfðabreyttar korntegundir kalla á aukna notkun skaðlegra efna (sjá að neðan).

Í þriðja lagi, þegar stórfyrirtæki lýsa ávinningi erfðatækninnar¬, gera þau það með því að vísa í iðnvæddan landbúnað sem er mjög stór í sniðum, í stað þess að fjalla um vistvænan landbúnað sem er til staðar í litlum einingum. Samt sem áður eru flestir bændur veraldarinnar smábændur sem rækta minna en tvo hektara, bæði til að mæta fjölbreyttum þörfum sínum fyrir matvæli og til að geta selt hluta af framleiðslunni á markaði.

Clive James, sem er ráðgjafi í líftækniiðnaði, fullyrðir að kartöflur sem eru þolnar gegn  plöntueitri, t.d. spari bændum 6 dollara á hvern hektara, en þessar tölur byggja á framleiðslueiningu sem eyðir á milli 30 og 120 dollurum á hvern hektara til að stjórna ágangi skordýra. Ef um er að ræða vistvænt, lífrænt bændabýli þá auka kartöflur sem eru þolnar gegn plöntueitri kostnaðinn um sem nemur 25 til 115 dollara á hvern hektara, og krefjast auk þess meiri notkunar skordýraeiturs.

Goðsögnin um minni notkun efnablandna í landbúnaði

Þróun korntegunda sem eru ónæmar gegn plöntueitri og skordýraeitri liggur að baki meira en 80 prósentum af öllum líftæknirannsóknum í landbúnaði. Hins vegar liggja nú þegar fyrir sannanir á því að í stað þess að hafa stjórn á illgresi, skordýraplágum og sjúkdómum, auki erfðatæknin efnanotkunina og geti skapað ofurillgresi, ofurskordýraplágur og ofurvírusa.

Opna alla greinina í Pdf-skjali og lesa meira.
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir þýðandi þýddi greinina.

Birt:
March 20, 2011
Höfundur:
Vandana Shiva
Tilvitnun:
Vandana Shiva „Erfðatækni og matvælaöryggi í heiminum - Vandana Shiva“, Náttúran.is: March 20, 2011 URL: http://www.natturan.is/d/2011/03/20/erfdataekni-og-matvaelaoryggi-i-heiminum-vandan-s/ [Skoðað:Dec. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: June 21, 2011

Messages: