Samtökin Veraldarvinir hlutu í dag Umhverfisverðlaun LÍÚ 2008 fyrir mikilvægt framlag við hreinsun strandlengju Íslands.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra afhenti Þórarni Ívarssyni, forsvarsmanni samtakanna, verðlaunin á 69. aðalfundi LÍÚ sem hófst í dag.

Þetta kemur fram á vef LÍÚ.

„Umhverfisverðlaun LÍÚ eru okkur Veraldarvinum gríðarlega mikilvæg viðurkenning á þeim verkefnum sem við höfum staðið fyrir á undanförnum árum,“ segir Þórarinn á vef LÍÚ.

„Þau eru jafnframt hvatning til þess að halda áfram á sömu braut af fullum krafti. Í sumar tóku tæplega 700 erlendir sjálfboðaliðar þátt í okkar verkefnum og fjölmargir þeirra komu að stærsta verkefni samtakanna sem er hreinsun strandlengju Íslands. Við erum afar þakklát fyrir stuðning LÍU og fyrir þann hug sem þeim stuðningi fylgir.“

Þá kemur fram að Veraldarvinir eru samtök sjálfboðaliða sem stofnuð voru árið 2001. Markmið samtakanna er að vinna með sveitarfélögum á Íslandi í samvinnu við alþjóðlega samstarfsaðila, m.a. að vitundarvakningu um umhverfismál.

Vel á þriðja þúsund sjálfboðaliðar víðs vegar að úr heiminum hafa á síðustu árum komið til Íslands til þess að vinna að ýmsum verkefnum á vegum samtakanna.

Af þeim tæplega 700 erlendu sjálfboðaliðum, sem komu til landsins nú í sumar, unnu 465 þeirra á einhvern hátt að því að hreinsa fjörur. Gengnir voru og hreinsaðir 675 kílómetrar af strandlengjunni. Til glöggvunar er það álíka langt og akstursleiðin frá Reykjavík alla leið austur á Seyðisfjörð!

Sjá kort þar sem sést hvar á landinu Veraldarvinir starfa á árinu 2008 á vef samtakanna.

Sjá sjálfboðaliðasamtök á Íslandi hér á græna kortinu.

Birt:
Nov. 1, 2008
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Veraldarvinir fá umhverfisverðlaun LÍÚ“, Náttúran.is: Nov. 1, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/11/01/veraldarvinir-fa-umhverfisverolaun-liu/ [Skoðað:Dec. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: