Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra um að settur verði á fót starfshópur ráðherra sem hafi það hlutverk að móta samningsmarkmið Íslands í væntanlegum viðræðum um samkomulag um loftslagsmál eftir 2012. Umhverfisráðherra mun leiða hópinn en auk hennar eiga sæti í hópnum Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.

Á alþjóðavettvangi fer nú fram undirbúningur nýrra samningaviðræðna um framtíðarfyrirkomulag loftslagsmála eftir árið 2012 þegar fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur. Áhersla er lögð á að nýtt samkomulag náist, ekki síst vegna nýrrar úttektar Vísindanefndar S.þ. um loftslagsbreytingar (IPCC), sem segir að loftslagsbreytingar af mannavöldum eigi sér nú þegar greinilega stað og að hlýnun lofthjúpsins muni halda áfram samfara vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar muni hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir heimsbyggðina á komandi áratugum verði ekki reynt að draga úr losun.

Aðildarríkjaþing Loftslagssamningsins fer fram í Balí í desember. Þar er vonast til að þingið veiti umboð til víðtækra samningaviðræðna um framtíð loftslagsmála eftir 2012 með þátttöku allra ríkja, þ.á m. Bandaríkjanna og Ástralíu, sem ekki eru aðilar að Kýótó-bókuninni og þróunarríkjanna, sem ekki hafa tölulegar skuldbindingar samkvæmt Kýótó.

Í ágústmánuði fóru fram viðræður innan loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Vín, þar sem m.a. var rætt um hugsanleg framtíðarmarkmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda á komandi áratugum. Í niðurstöðum fundarins var m.a. vísað til útreikninga IPCC um að til þess að halda hlýnun lofthjúpsins innan við 2-2,5°C þurfi losun á heimsvísu að byrja að minnka innan 10-15 ára og helmingast fyrir 2050. Til skemmri tíma myndi slíkt markmið þýða að þróunarríki yrðu að hægja á aukningu losunar og þróuð ríki þyrftu sem heild að draga úr losun sem nemur um 25-40% til 2020.

Frétt frá Umhverfisráðuneytinu.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
Sept. 18, 2007
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Ráðherrahópur skipaður vegna lofslagsmála“, Náttúran.is: Sept. 18, 2007 URL: http://www.natturan.is/d/2007/09/18/rherrahpur-skipaur-vegna-lofslagsmla/ [Skoðað:Sept. 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Sept. 20, 2007

Messages: