Talið er að allt að þriðjungur jarðarbúa eða 2,6 milljarða manna búi ekki við fullnægjandi hreinlætisaðstöðu og því hafa Sameinuðu þjóðirnar tilnefnt árið 2008 sem alþjóðaár hreinlætis. Í ár er Dagur vatnsins helgaður hreinleikai vatns og athyglinni beint að þeirri staðreynd að hreinlæti er nauðsynlegt fyrir heilbrigði manna og undirstaða efnahagslegra umbóta. Hreinlæti stuðlar að reisn og þjóðfélagslegri þróun, bætir umhverfið og síðast en ekki síst er hægt að bæta hreinlætisaðstöðu. Með því að tileinka árið 2008 sem ár hreinlætisins vonast Sameinuðu þjóðirnar til þess að hægt verði að bæta hreinlæti hjá að minnsta kosti helmingi þeirra 2,6 milljarða jarðabúa sem ekki búa við slík gæði fyrir árið 2015.

Aðgangur að hreinu drykkjarvatni og lágmarks hreinlætisaðstöðu er forsenda þess að hægt sé að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna varðandi fátækt, heilsu, jafnrétti kynjanna og sjálfbærni umhverfisins. Bætt hreinlætisaðstaða mun hafa bætandi áhrif á heilsu fólks og umhverfið, og frumforsenda bættrar almannaheilsu, marktæk minnkun vatnsborinna sjúkdóma og sýkla og rof á smitleiðum þeirra, og hægt verður að koma í veg fyrir ótímabæran dauða milljóna manna. Bætt hreinlætisaðstaða hefur einnig áhrif á mannlíf, virðingu, næði og öryggi, sérstakleg kvenna og stúlkna og eflingu jafnréttis kynjanna.

Í ávarpi hr. Koïchiro Matsuura, aðalritara UNESCO, Efnahags- og framfarastofnunar Sameinuðu þjóðanna, í tilefni dagsins, kemur fram að umhverfislegur ávinningur af hreinlæti sé vanmetinn, og að bein losun af óhreinsuðu frárennsli og úrgangi mannsins sé mikil ógnun við heilsu og virkni vatnavistkerfa. Bætt meðhöndlun frárennslis og hreinlæti er jákvæð vegna verndunar vatnsauðlindarinnar, m.a. gegn sýklamengun og annarri efnamengun. Hann bendir ennfremur á að það sé nú sem aldrei fyrr áríðandi að koma á samstarfi atvinnulífsins, sveitarstjórna og sveitarfélaga, heimila og fjárfesta svo taka megi á hreinlætismálunum á sjálfbæran hátt. Sveitarfélög þurfi að vera með stefnumótun og áætlanir um aðgerðir á landsvísu, en það er undirstaða framfara á þessu sviði.

Sameinuðu þjóðirnar og UNESCO vinna að mörgum vatnsverkefnum þeim tilgangi að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um vatn og hreinlæti. Með því að tileinka árið 2008 sem alþjóðaár hreinlætisins þá vonast Sameinuðu þjóðirnar að hægt verði að bæta, breiða út og dreifa þekkingu og upplýsingum um vatn og vatnsgæði.

Frekari upplýsingar á heimasíðu Alþjóðaárs hreinlætisins http://esa.un.org/iys/ og Dags vatnsins 2008 http://www.unwater.org/worldwaterday/flashindex.html.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
March 22, 2008
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „22. mars - Dagur vatnsins“, Náttúran.is: March 22, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/03/22/22-mars-dagur-vatnsins/ [Skoðað:Dec. 11, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: