Nátturan.is hefur nú fengið staðfestingu á því að fyrirtækið Náttúran er ehf. sem stendur að vefnum fái nú framlag á fjárlögum Alþingis í annað sinn en vefurinn fékk einnig úthlutun árð 2008. Við erum óumræðinlega þakklát fyrir þá viðurkenningu sem felst í úthlutuninni og lítum björtum augum til framtíðarinnar og þess að vefurinn verði enn öflugra tæki til þess að sem flestir geri umhverfisvitund að ábyrgum lífsstíl sínum. Efnahagsástandið í landinu hefur haft mikil áhrif á starfsemi vefsins eins og allra aðila í þjóðfélaginu og því lífsspursmál að hafa fengið þessa úthlutun nú.

Náttúran.is stundar eins og lesendum og skoðendum hennar er kunnugt, öfluga umhverfisfræðslu með þróun og framleiðslu eigin efnis sem og birtir hún efni í samvinnu við fjölda aðila s.s. náttúruverndarsamtök, einstaklinga, vottunaraðila, stofnanir sem hafa með umhverfi og náttúru að gera og fyrirtæki sem stunda á einhvern hátt náttúruleg og umhverfisvæn viðskipti. Á síðasta ári hófum við þróun Græns Íslandskort/Green Map of Iceland í samvinnu við Green Map Systems og Land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands. Einnig tókst okkur að þýða meginhluta vefsins og gagnagrunnsins alls á ensku (sjá: nature.is) þannig að vefurinn geti verið tæki sem tengir Ísland við alþjóðasamfélagið og umhverfisstarf á heimsvísu. Árið 2009 munum við halda áfram að þróa ensku útgáfuna, opna ensku vefverslunina og senda öllum á grænum síðum boð um að skrá enn nákvæmari upplýsingar um sig á vefinn gegn vægu gjaldi. Sjá dæmi um hvernig grænar síður virka með því að skoða þáttinn um vottanir og viðmið.

Takmarkið er að Náttúran.is geti svarað öllum þeim umhverfis- og heilsutengdu spurningum sem vakna í dagsins önn. Ákvarðanir upplýstra neytenda um vistæn innkaup eru meginforsenda þess að umhverfisvæn fyrirtæki og vörur fái byr undir báða vængi og að því vill Náttúran.is stuðla með því að setja efni fram á aðgengilegan og myndrænan hátt frá öllum, fyrir alla sem tengjast málaflokknum á einhvern hátt.

Birt:
Jan. 22, 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is fær framlag á fjárlögum annað árið í röð“, Náttúran.is: Jan. 22, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/01/22/natturan-faer-framlag-fjarlogum-annao-ario-i-roo/ [Skoðað:Jan. 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: