Ef engin bifreið á götum borgarinnar væri búin nagladekkjum gæti Reykjavíkurborg sennilega sparað um það bil 300 milljónir króna árlega. Gert er ráð fyrir að árlega þurfi um það bil 10.000 tonn meira af malbiki en ella vegna mikillar nagladekkjanotkunar. Svifryk hefur farið 22 sinnum yfir heilsuverndarmörk á árinu.

Nagladekk spæna upp malbikið á götum borgarinnar hundrað sinnum hraðar en naglalaus dekk og eru þau ein helsta uppspretta svifryks í Reykjavík. 44% bifreiða voru á nöglum í apríl 2008. Svifryksmengunar í Reykjavík gætir mest að vetri til þegar veður er þurrt og kalt, lítill raki er í andrúmslofti og umferð mikil. Svifryk hefur farið 22 sinnum yfir heilsuverndarmörk á þessu ári en mátti einungis fara 18 sinnum yfir á árinu samkvæmt reglugerð nr. 251/2002. Svifryk fór síðast yfir heilsuverndarmörk 1. nóvember og þar áður 20. og 27. október.

Svifryk (PM10) eru örfínar agnir sem eru skaðlegar ef þær komast í lungu fólks. Svifryk á götum borgarinnar er bæði vegna slits á malbiki og vegna uppþyrlunar á aðfluttu ryki eins og jarðvegsryki. Notkun góðra vetrardekkja í stað nagladekkja myndi bæði draga úr svifryksmengun og kostnaði vegna viðhalds gatna. Heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring.
Birt:
Nov. 5, 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Afleiddur kostnaður við nagladekk“, Náttúran.is: Nov. 5, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/11/05/afleiddur-kostnaour-vio-nagladekk/ [Skoðað:Dec. 7, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: